Friday, May 31, 2013

Sjónvarpsskápurinn

Ég fékk sjónvarpsskáp sem amma mín átti og var ekki alveg nógu hrifin af litnum á honum, en fannst þetta annars fallegur skápur. Áður en ég lakkaði hann fannst mér hann frekar sumarbústaðarlegur. 


Hérna er mynd af honum áður en ég byrjaði.

Ég byrjaði á því að pússa hann allan upp og grunnaði hann svo. Ég átti afgang af grunni og lakki frá því ég tók kommóðuna í gegn.


Hérna var ég svo búin að grunna hann. Ég skrúfaði plötuna sem er ofan á af og tók hana af á meðan ég var að mála yfir allt hitt og setti hana svo aftur á áður en ég málaði hana (skrúfaði hana samt ekki fasta). Svo tók ég skápshurðarnar af. Með því að taka þetta af var mun auðveldara að komast að öllu og mála.


Hérna er hann svo tilbúinn, þurfti að lakka þrjár umferðir yfir eftir að ég grunnaði. Svo skipti ég um höldur á honum og setti eins höldur og ég er með á kommóðunni.


Þetta var svolítið tímafrekt en var ekkert voðalega mikið mál þegar uppi er staðið.

Vona að þið hafið haft gaman að :)
-Fjóla Rut

Wednesday, May 29, 2013

Partýmatur

Halló allir :)

Í síðasta mánuði var ég með smá afmælis-partý. Ég gerði ýmiss konar veitingar og mig langar að segja aðeins frá þeim í þessu bloggi.


Hérna er mynd af borðinu með veitingunum þegar allt var tilbúið.

Ég vildi hafa þetta einfalt en samt gott. Ég var búin að undirbúa flest kvöldið áður þannig að ég gæti bara stungið því sem átti að vera heitt inn í ofn þegar fólk færi að láta sjá sig.

Í fyrsta lagi var ég með grænmetisbakka og ídýfur. Það er mjög einfalt að gera það, ég reyndar gerði ekki ídýfuna sjálf. En grænmetið sem ég var með var gúrkur, gulrætur og tvo liti af papríku. Það sem kláraðist fyrst af  bakkanum voru gulræturnar, þannig að það hefði mátt vera meira af þeim. En það er hægt að hafa fleiri tegundir af grænmeti, í raun bara hvað sem ykkur dettur í hug, t.d. brokkolí og blómkál.

Ég var líka með ávaxtabakka, það gildir það sama með þá og grænmetisbakkana, það er í raun hægt að hafa hvað sem er. En það sem ég var með á mínum voru appelsínur, vínber, epli og mangó. Svo skar ég toppinn ofan af melónu og tók allt innan úr henni. Síðan skar ég melónuna í teninga og setti þær svo ofan í börkinn aftur.

Einnig var ég með sætar kartöflur sem ég skar í teninga og vafði með beikoni. Þetta er mjög einfalt, þarf ekkert krydd eða neitt, heldur bara að setja tannstöngull í kartöfluna svo beikonið haldist og svo inn í ofn. Ég var líka með ítalskar snittur með pestói, mozzarella og konfekttómat. Þetta er líka mjög einfalt, ég keypti snittubrauðið og pestóið tilbúið.

Svo var ég með quesadillas með kjúkling, maís, papríku, rauðlauk, salsa og osti. Ég byrjaði á því að steikja kjúklinginn, svo þegar hann var steiktur blandaði ég bara öllum hinum hráefnunum við og hitaði það aðeins, svo skellti ég þessu bara á pönnukökur og svo inn í ofn rétt áður en ég bar það fram.

En það sem mér finnst langbest af því sem ég var með var fyllt jalapeno. Ég keypti fersk jalapeno í Kosti (þau fást ekki hvar sem er, hef séð þau í Kosti og Víði), rjómaost, mexíkó pylsur, cheddar-ost og beikon. Ég blandaði saman smátt niðurskornum pylsum og rjómaosti saman og setti það í jalapeno sem ég var búin að skera endann af og svo í tvennt langsum og taka fræin úr. Svo stráði ég cheddar osti yfir og vafði beikoni utan um. Þetta var alveg ótrúlega gott og alls ekki eins sterkt og maður myndi halda, rjómaosturinn dregur úr því hvað þetta er sterkt. 

Og að lokum ætla ég að segja frá bollunni sem ég gerði. Þegar ég var að skera niður vatnsmelónuna varð svo ótrúlega mikill safi eftir í berkinum að ég ákvað að safna honum saman í glas. Þegar ég var að gera bolluna ákvað ég að prófa að nota safann í hana, þannig að ég sigtaði alla melónuna og steinana úr sem voru eftir í safanum og skellti honum út í bolluna. En það sem bollan innihélt var vodka, trönuberjasafi, ananassafi, appelsínusafi, melónusafinn og sprite. Svo var ég með niðurskorna ávexti og ísmola útí henni Að mínu mati heppnaðist hún bara mjög vel og gaf melónusafinn sérstaklega mjög ferskt og gott bragð.

En ég vona að þessar hugmyndir gagnist einhverjum :)

-Fjóla Rut

Tuesday, May 28, 2013

Húsgagnabreytingar

Hæ!

Ég er komin með æði fyrir því að breyta húsgögnum. Ég er búin að vera að sanka að mér alls konar húsgögnum til að breyta (og bæta). Það sem var fyrst á dagskrá hjá mér var kommóða. Ég gleymdi að taka "fyrir" mynd þannig að ég ætla bara að stela svoleiðis á netinu :)


Svona leit hún út áður, bara plain Malm kommóða úr Ikea. Nema hvað mín var orðin frekar rispuð og illa farin.


Eftir mikla pússun (aðeins of mikla á einni skúffunni eins og sést hérna), þá grunnaði ég hana með hvítum viðargrunni og lakkaði svo þrjár umferðir með hvítu lakki. Mér var sagt eftir að ég var búin með þessa skúffu að ég þyrfti ekki að pússa svona mikið. Það þarf bara aðeins að "matta" lakkið svo viðloðunin verði betri.


Svo skar ég út lista og keypti höldur á hana. Ég málaði listana ljósbleika og límdi þá svo á með límbyssu. Ég fékk pabba reyndar til að hjálpa mér að bora göt fyrir höldurnar, en svona er loka niðurstaðan. 

Heildarkostnaðurinn við yfirhalninguna var frekar mikill en þó ekki eins mikið og að kaupa nýja kommóðu.

Ég þurfti að kaupa grunn og rúllu fyrir hann. Það kostaði eitthvað um 3000 kr. í byko.
Svo keypti ég lakk sem kostaði 1790 kr í Múrbúðinni. (Var mun dýrara í Húsasmiðjunni og Byko).
Ég þurfti líka sérstaka rúllu í lakkið, hún kostaði 800 kr í Byko.
Höldurnar kostuðu allar saman 2490 kr í Byko.
Spýturnar í listana kostuðu eitthvað í kringum 1500 kr og málningin á þá ca 500 kr.

Í heildina kostaði þetta eitthvað yfir 10.000 kr. En kommóðan er að mínu mati mun fallegri eftir yfirhalninguna.

En núna eru í vinnslu hjá mér tveir hlutir.


Þessi ljósakróna annars vegar.


Og þessi sjónvarpsskápur hins vegar.

Fylgisti endilega með til að sjá hvernig þetta mun koma út :)

Monday, May 27, 2013

Fyrsta bloggið :)

Jæja, þá kemur fyrsta bloggið :)

Ég hef reynt að gera blogg áður en hef þá bara haft um voðalega lítið að skrifa. En núna ætla ég að reyna að vera duglegari að segja frá því sem ég er að gera. Ég hafði hugsað mér að setja bara inn það sem ég er að gera að hverju sinni, til dæmis make-up, uppskriftir, húsgagnabreytingar og bara það sem mér dettur í hug. En svona til að byrja þetta aðeins, þá ætla ég að setja myndir af því sem ég er búin að vera að gera.

Þessar myndir eru bara teknar á símann minn og gæðin eru ekkert frábær, ég skal reyna að bæta þetta í næstu bloggum :)


Þessi mynd er af snyrtihorninu mínu í herberginu mínu. Ég gleymdi að taka mynd af því hvernig það var áður en það er komið svolítið langt síðan ég gerði þetta. Blómin fékk ég í ikea og ég var aðallega að nota þau til að hylja það hvað veggurinn var orðinn ljótur eftir að hafa tekið niður hillu sem var þar, en mér finnst þau bara koma nokkuð vel út. Naglalakkastandinn gerði ég sjálf úr Foam Board, ég keypti tvö svoleiðis í Litir og föndur. Minnir að þau hafi kostað innan við þúsund krónur hvort. Svo skar ég annað þeirra bara niður í hillurnar og límdi þær á með límbyssu. Snyrtidótið sjálft er ég svo með í körfum þarna vinstra megin við á borði. Ég setti svo sand í blómavasa og læt burstana mína bara standa í þeim. Ég kem kannski með betri myndir af þessu öllu síðar.


Ég átti þessa seríu ofan í skúffu og langaði að gera eitthvað við hana, en ég bara vissi aldrei hvað ég ætti að gera við hana. En svo fékk ég þessa hugmynd þar sem mig langar svo í rúmgafl en kemst ekki alveg í það að fá mér svoleiðis strax. 


Þessa kertastjaka og skál átti amma mín heitin. Mér finnst þessir kertastjakar svo ótrúlega fallegir og skálin líka. Ég setti seríu sem gengur fyrir rafhlöðum í skálina og setti svo glæra og hvíta skrautsteina með.

Þetta voru bara nokkrar myndir af skreytingum í herberginu mínu. Ég er samt að bíða eftir íbúð í stúdentagörðunum, ég og kærastinn minn erum að sækja um paríbúð og ég kem til með að sýna ykkur hvernig hún verður þegar ég verð búin að koma mér fyrir þar.

En bless í bili, vona að þið hafið haft gaman að þessu.

-Fjóla Rut