Í síðasta mánuði var ég með smá afmælis-partý. Ég gerði ýmiss konar veitingar og mig langar að segja aðeins frá þeim í þessu bloggi.
Hérna er mynd af borðinu með veitingunum þegar allt var tilbúið.
Ég vildi hafa þetta einfalt en samt gott. Ég var búin að undirbúa flest kvöldið áður þannig að ég gæti bara stungið því sem átti að vera heitt inn í ofn þegar fólk færi að láta sjá sig.
Í fyrsta lagi var ég með grænmetisbakka og ídýfur. Það er mjög einfalt að gera það, ég reyndar gerði ekki ídýfuna sjálf. En grænmetið sem ég var með var gúrkur, gulrætur og tvo liti af papríku. Það sem kláraðist fyrst af bakkanum voru gulræturnar, þannig að það hefði mátt vera meira af þeim. En það er hægt að hafa fleiri tegundir af grænmeti, í raun bara hvað sem ykkur dettur í hug, t.d. brokkolí og blómkál.
Ég var líka með ávaxtabakka, það gildir það sama með þá og grænmetisbakkana, það er í raun hægt að hafa hvað sem er. En það sem ég var með á mínum voru appelsínur, vínber, epli og mangó. Svo skar ég toppinn ofan af melónu og tók allt innan úr henni. Síðan skar ég melónuna í teninga og setti þær svo ofan í börkinn aftur.
Einnig var ég með sætar kartöflur sem ég skar í teninga og vafði með beikoni. Þetta er mjög einfalt, þarf ekkert krydd eða neitt, heldur bara að setja tannstöngull í kartöfluna svo beikonið haldist og svo inn í ofn. Ég var líka með ítalskar snittur með pestói, mozzarella og konfekttómat. Þetta er líka mjög einfalt, ég keypti snittubrauðið og pestóið tilbúið.
Svo var ég með quesadillas með kjúkling, maís, papríku, rauðlauk, salsa og osti. Ég byrjaði á því að steikja kjúklinginn, svo þegar hann var steiktur blandaði ég bara öllum hinum hráefnunum við og hitaði það aðeins, svo skellti ég þessu bara á pönnukökur og svo inn í ofn rétt áður en ég bar það fram.
En það sem mér finnst langbest af því sem ég var með var fyllt jalapeno. Ég keypti fersk jalapeno í Kosti (þau fást ekki hvar sem er, hef séð þau í Kosti og Víði), rjómaost, mexíkó pylsur, cheddar-ost og beikon. Ég blandaði saman smátt niðurskornum pylsum og rjómaosti saman og setti það í jalapeno sem ég var búin að skera endann af og svo í tvennt langsum og taka fræin úr. Svo stráði ég cheddar osti yfir og vafði beikoni utan um. Þetta var alveg ótrúlega gott og alls ekki eins sterkt og maður myndi halda, rjómaosturinn dregur úr því hvað þetta er sterkt.
Og að lokum ætla ég að segja frá bollunni sem ég gerði. Þegar ég var að skera niður vatnsmelónuna varð svo ótrúlega mikill safi eftir í berkinum að ég ákvað að safna honum saman í glas. Þegar ég var að gera bolluna ákvað ég að prófa að nota safann í hana, þannig að ég sigtaði alla melónuna og steinana úr sem voru eftir í safanum og skellti honum út í bolluna. En það sem bollan innihélt var vodka, trönuberjasafi, ananassafi, appelsínusafi, melónusafinn og sprite. Svo var ég með niðurskorna ávexti og ísmola útí henni Að mínu mati heppnaðist hún bara mjög vel og gaf melónusafinn sérstaklega mjög ferskt og gott bragð.
En ég vona að þessar hugmyndir gagnist einhverjum :)
-Fjóla Rut
No comments:
Post a Comment